Leita í fréttum mbl.is

Gæsari

Hendið börnunum út. Lokið fyrir símann. Tengið headfóna við tölvuna. Tengið þvaglegg við gæsahúðina, hún á eftir að leka út. Njótið vel.

 


Í sófanum heima

hanging out_pngEinhverntíma sat ég á sófanum heima í Brekkuhvammi í Búðardal, á æskuslóðum. Held ég hafi verið um átta ára. Það var sumar, man það skýrt með því að ná í sjón-minninguna þar sem ég sat á sófanum.

Sjónvarpið um fjóra metra fyrir framan mig. Slökkt á því. Ég horfði bara út um gluggann og man hvað mér leið vel. Ég heyrði pabba leggja í hlað fyrir utan. Mamma var inn í búri að sækja eitthvað fyrir kvöldmatinn. Man ekkert hvar Biggi eldri bróðir eða yngri systkini mín voru. Heyri pabba koma inn, labba fram hjá mér, sagði ekkert. Hann náði í franskar kartöflur og fór inn í þvottahús þar sem steikingarpotturinn var. Byrjaði að sjóða - eftir nokkur augnablik fann ég lyktina koma inn í stofu.

Ég horfði út um gluggan og man hvað mér leið vel.

Það er sagt í einhverjum andlegum fræðum að það sé óhollt að vera velta sér of mikið upp úr fortíðinni. Auk þess er í tísku að vera í núinu. Drengum virðist vera sama um það.

Ég ræð ekki alveg við þetta þó, þetta er eins og að vera endurfæddur, að vera orðin stór strákur, en mun samt eftir óþægilega ljúfu lífi. Skil því vel hvers vegna englarnir ákveða í flestum tilfellum að núll-stilla okkur við hverja endurkomu. Svo við megum ekki þjást af fegurð eða hrylli fyrri ferða.

Ég sat í sófanum og fann fyrir pabba og mömmu. Og leið mjög vel. Litli hnokkinn - ég súmma inn á hann með kvikmynda-auganu, til að gefa til kynna allt það sem hann á eftir að upplifa.

Passa mig að súmma ekki of hratt, verður að vera hægt, því hann á eftir að ganga í gegnum föðurmissi, horfa á mömmu sína gráta og systkyni sín þjást óbærilega og á ekkert eftir að geta gert við því. Súmmið staðnæmist við saklausa augasteininn sem á eftir að sjá og upplifa hæfilegt magn af fegurð og skít útdeilt af örlagaenglunum.

Í dag sér augasteinninn að allir þurfa að ganga í gegnum hitt og þetta og þjáning hans er ekkert frábrugðin öðrum hræðum. Við flestum almættis-spurningum eru engin svör, það þurfa bara allir að synda í gegnum mislitar öldur.

Man mjög skýrt eftir því að ég prumpaði mikið af matnum þennan dag eftir afmælið hjá Reyni æskuvini mínum þar sem ég sat í sófanum heima.

Ari Edwald og Silfrið

Mér leiðast yfirleitt málefni líðandi stundar og slepp oftast nokkuð vel hjá því að upptaka huga minn með óþarfa innbrotum. Langar þó aðeins að blaðra um mál Ara Edwalds og Silfur Egils sem kom upp um daginn.

Las grein Ara í Fréttablaðinu þar sem hann telur víst að hann hafi verið kominn með samning við Egil um áframhald Silfursins. Hann líkir meintum samningsbrotum af hálfu Egils við fótboltakappa og annað í þeim dúr, að þeir geti ekki sagt upp samningi ef þeir eru á annað borð á honum. Ari fullyrðir að þarna hafi verið kominn skýr samningur með tölvupóstssamningum og rekur sínar skoðanir á því. Það er þó á hreinu að það var ekki kominn samningur, ekki nelgdur, heldur óljós símtöl og tölvupóstssamskipti.
-
Það er bara þannig að lífið breytist á hverri sekúndu, menn skipta um skoðun og Egill gerði það. Það þarf ekkert að koma á óvart, og það er óþarfi að vera gera úr þessu blaðamál og læti. Það var neðanbeltis af Ara að gefa upp laun Egils á bloggsíðu hér um daginn.

-
Hinsvegar bendir Ari á, eins og nokkrir hafa gert í ljósi þessa máls, að það sé athugavert þegar RÚV er að blanda sér í popúlískt sjónvarpsefni til að ná í auglýsendur. Það er fínn punktur í því, minnir að Jón Kaldal hafi einnig skrifað um þetta um daginn, að RÚV ætti að ryðja veginn, en ekki vera að kaupa bestu leikmennina úr öðrum liðum.

Ætla ekki að nöldra eitthvað yfir því enn sem komið er. Páll og félagar í Efstaleitinu er nýbúnir að fá nýja fyrirkomulagið í hendurnar. Við skulum sjá hvar við stöndum eftir nokkrar öldur.

(fyrir dagblöð og aðra miðla, það er bannað að endurbirta þessi skrif nema með leyfi frá kvikmyndastráknum).


Lu Yu

Lu_Yu Hjá mér í heimsókn þessa dagana er stórmerkilegur maður. Það er hann Lu Yu, leikari, ættaður frá Taiwan.  Lu þessi lék hlutverk geðilla kvikmyndatökumannsins í kvikmynd Woody Allen "Hollywood Ending".  Hann er að leika í kvikmyndinni Stóra Planið sem leikstýrt er af einhverjum nörd út í bæ.

Lu ólst upp í Taiwan - ungur að árum fékk hann leikarasamning í Hong Kong, flutti sig yfir og byrjaði að leika í hinum og þessum myndum. Hann var það mikil stjarna að honum var ráðinn áhættuleikari að nafni Jackie Chan. Jackie ferðaðist á þessum tíma með ferðaleikhúsinu sínum, hinum sjö frænku (eða eitthvað á þá leið), þar sem þeir tróðu upp í ýmsum stöðum í Hong Kong - einhver framleiðandi sá hann, og datt í hug að þetta væri sniðugt, að hafa áhættuleikara fyrir stjörnurnar, og þ.m.t. Lu Yu. Þetta gerist á sjött áratugnum.

Nú er Lu sextugur, býr á Manhattan, lifir þar hógværu en atorkusömu lífi með spúsu sinni til margra ára. Hann vinnur við leikhús, bæði í skólum sem og atvinnumaður. Hann er leikar, kóreografer og ég-veit-ekki-hvað. Hann rötlir nú um bæinn í rólegheitum á milli þess sem hann kíkir yfir til mín og við fíflust aðeins með línurnar hans. Hrafnasparkið sem ég ritaði, hefur hann breytt yfir á íðilfagra mandarín.

Við höfum byggt litla íbúð í stúdíó í bænum, sem á að vera í New York, þar sem söguhetjan býr.  Það verður ódýrt og skemmtilegt að komast til New York á sunnudaginn, án þess að þurfa að fljúga.


Ævintýrin þarna úti

Kalda stríðið er við það að skella aftur á. Einhver smyglar eiturlyfjum. Mannsal. Fátækt. Eftir nokkrar vikur byrja fréttir af einhverjum hvirfilbyl í Guatalahara. Ráðmenn landa ibba gogg við hvern annan.

Lífið er alltaf á repeat. 

Það er ekkert nýtt að gerast, þannig séð, úti í heimi eða hér á klakanum. Allt eru þetta sömu hringrásirnar aftur og aftur, með eilítið skekktum formerkjum. Það eru einmitt þessi skekktu formerki sem líf okkar gengur út á. Hvernig við vöknum á hverjum degi, eina sem okkur hefur verið kennt að merkja í athyglisvitundinni eru þessi skekktu formerki, þessi var að gifta sig, þessi hélt framhjá, þessi stal peningum, Paris Hilton fer í fangelsi ... who gives a flyin'.

Þetta sannfærir mann enn betur, að ævintýrin í lífinu geta með engu móti verið þarna úti. Þau hljóta að vera í eigins rassi, manni sjálfum.

Amk í augnablikinu tel ég mér trú um það. Að það sé til hags að beina sjónum að eigin gleraugum í átt að heiminum. 


Naselmemorandum

sleeping beauty_pngLyktarskynið er öflugasta tímavélin. Í sekúndubrot finnur maður hina og þessa lykt og tengir ósjálfrátt við eitthvað minningarkornið.

Þetta finn ég vel þegar ég fer og skokka. Ég hleyp einhvern hring hér í miðbænum þar sem misprúðar vindáttir ráðast að manni. Við þetta fer allt af stað. Eina stundina er ég kominn á táningsaldur á leið til vinnu til pabba, svo er ég kominn á Héraðstmót í Saurbæ, vaknandi heima í Búðardal með Andrésblöðin á víð og dreif tilbúin að hoppa fram úr og hlusta í milljónasta skipti á Dýrin í Hálsaskógi.

Þetta hefur gert það að verkum að ég er mun duglegri við að skokka heldur en áður. Nánast hlakkar mig til að hoppa út á hverjum degi öfugt við þá daga sem maður barðist við sannfæringavél heilans um að maður gæti bara gert þetta á morgun eða hinn, eða að manni væri allt í einu illt í fætinum.

Ég er að segja ykkur það, nasel-memorandum, þrælvirkar.

Japan og Yamagata

Einhverntíma fór ég til Japan ásamt Ragnari Santos, kvikmyndabróður, með myndina Africa United á kvikmyndahátíð. Það var skemmtilegt en dálítið furðuleg lífsreynsla. Við fórum til Yamagata, þar sem hátíðin fór fram, lítill bær á stærð við Reykjavík að mig minnir. Þegar þangað var komið höfðu nokkrir barnaskólar séð verkið og börnin höfðu teiknað myndir úr verkinu af aðalsöguhetjunum. Við að sjá teikningarnar hanga í móttöku hátíðarinnar fór maður að taka á sig þann misskilning að maður væri einhverja stjarna með þessa mynd í farteskinu. Misskilningurinn jókst við að fara í útvarpsviðtal, sem var reyndar fyrsta útvarpsviðtalið hjá einhverri stúlku sem var svo dauðstressuð að hún kom varla upp orði. Hún var greinlega líka haldin þessu, að halda að ég og Ragnar Santos værum einhverjar stjörnur. Ekki batnaði það þegar það var uppselt á myndina á allar sýningar og eftir hverja var löng röð af fólki sem vildi fá eiginhandaráritun hjá piltunum. Hérna má sjá myndklipp frá ferð okkar Ragga:

Afhommunarmeiningar

Einhver Jón Valur á moggablogginu er ástríðufullur þegar kemur að réttlætingu afhommunar, trúir því statt og stöðugt að það sé hægt og finnur sig knúin til að ráðast harkalega að þeim sem mæla á móti. Piltur er með ólíkindum duglegur að skrifa og rökræða þessa hluti.

Ég stóð einhvern tíma í þeirri trú að rök hefðu ekkert með þyngdarafls-veruleika hjarta og sálar að gera og væru vanmáttug á þeim vígstöðvum.

Eflaust meinar Jón Valur vel, því hann sinnir þessar baráttu af einurð og er mikill fræðimaður. Oftast viljum við vel, eins og sagan hefur sýnt - það voru einhverjir menn sem voru í góðri trú á sínum tíma þegar þeir brenndu nornir.


Skógardýrin

Það er merkilegt að fylgjast með nafnlausum "kommentum" í kerfinu á Visir.is. Þar kemur í ljós rosaleg vanlíðan og mannfyrirlitning. Þessi iðja virðist helst blómstra í skjóli nafnleyndar sem viðhefst á vefnum.

Þetta nafnleyndarkerfi má finna á mörgum spjallsíðum - það er afar ósmekklekt að sjá menn belgjast út í skrifum yfir óförum annarra á fréttasíðu. Þetta á líka við mbl.is, þar sem kommentin er þó eilítið ljúfari.

Maður veltir fyrir sér þvílík vanlíðan og hatur leynist undir grasrótinni hér.

Hvað varð um öll dýrin í skóginu sem ætluðu að vera vinir.


Tökum lokið

Wolfie_Tent44Aðaltökum er lokið á kvikmyndinni Stóra Planið. Þetta hefur verið átakalítill tími, aðallega bara skemmtilegur, óvenjulegur stuttur listi yfir bræðisköst starfsfólks. Er lítið þreyttur eftir tökurnar, enda vara bara unnið 9-5 svona mestmengis, auðvelt lipurt og létt.

Er byrjaður að klippa þetta saman og þetta lítur prýðilega út. Það lítur út fyrir að þetta verði tvær myndir. Ekki einatt tókum við upp efnið sem var í hinu svokallaða handriti heldur bætti undirritaður fjöldamörgum senum við handritið.

Ætli það sé ekki vegna þess að ég kem úr heimildamyndum, er vanur því að raunveruleikinn sé aðgengilegur myndavélinni úr hvaða átt sem er.

Við förum í enn einar aukatökur á verkinu um miðjan júní, ég læt mér ekki segjast, ætla að taka upp slatta í viðbót uns ég er kominn með allt efnið sem ég vil fá í hús.

Ælta að fara í sund. Si, Grande.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ólaf de Fleur Jóhannesson
Ólaf de Fleur Jóhannesson
El chico con cámara

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband