6.2.2007 | 21:15
Stóra Planið
Er að undirbúa næstu mynd. Í augnablikinu erum við að klippa "Queen Raquela", það er prúður piltur að nafni Dagur Kári sem deilir snilli sinni í gegnum klippiborðið á þeim vígstöðvum. Í dag hef ég verið að snurfusa stutta samantekt fyrir næsta verk - gamanmynd sem kallast "Stóra Planið". Læt efnistökin fylgja hér að neðan. Sendi ljúfar út í lifið úr fílabeinsturninum á Vesturgötu.
...
Stóra Planið
Næstum því Kung-Fu mynd
Þegar Davíð var lítill drengur missti hann litla bróður sinn í slysi. Síðan þá hefur hann öðlast sáluhjálp í kínversku sölumyndbandi sem kallast The Higher Force eða Stóra Planið eins og Davíð kýs að kalla það. Þó flestir myndu afgreiða boðskap myndbandsins sem fimmaura-heimspeki þá veit Davíð betur.
Enn þann dag í dag gagnast þessi speki honum vel. Þrátt fyrir að Davíð sé í vafasömum félagsskap í handrukkaragengi þá er hann fullviss um að stærra lífshlutverk bíði hans með hjálp Stóra Plansins.
Davíð (Pétur Jóhann Sigfússon) kynnist einmana grunnskólakennara Haraldi (Eggert Þorleifsson) sem skynjar þörf unga mannsins fyrir leiðsögn í lífinu og tekur hann upp á sína arma. Þegar Davíð trúir Haraldi fyrir því að hann sé meðlimur í glæpagengi umturnast Haraldur sjálfur í glæpakóng. Haraldur segist allt í einu fá sendingar að utan með leynilegum varningi, eiga fullt af íbúðum og vera með marga grunsamlega menn í vinnu.
Í handrukkargenginu er alltaf verið að gera lítið úr Davíð fyrir kveifskap. Það breytist þegar Davíð segist þekkja Harald hinn mikla glæpakóng. Við þetta verður Davíð aðalnúmerið, maðurinn sem leggur líf sitt og limi í hættu til að njósna um hinn hættulega grunnskólakennara.
Davíð er fullviss að hin góða staða hans í dag sé Stóra Planinu að þakka og nýtur hverrar mínútu sem aðalmaðurinn í genginu. Smám saman koma brestir í hina nýju heimsmynd Davíðs, Haraldur verður æ skrítnari í hegðun auk þess sem foringi handrukkaragengisins krefst þess að Davíð láti til skarar skríða gegn grunnskólakennaranum ekki seinna en strax.
Athugasemdir
Ég átti heima á Vesturgötunni sem krakki og þar var mjög inspírerandi umhverfi. Ekki nema von að vel gangi hjá þér.
Svava frá Strandbergi , 6.2.2007 kl. 21:33
Mér finnst alltaf gaman að lesa bloggið þitt...
takk fyrir mig
Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 23:39
Mér finnst þetta athyglisverð saga og umgjörðin góð, sem er fyrir öllu. Handrukkaragengi, finnst mér samt fyrir ofan og neðan þann veruleika, sem meðaljóninn getur sett sig inn í. Þetta er oftast ekki mjög skipulegt apparat. Þekki þetta svolítið af afspurn úr AA og meðferðum hér fyrrum. Þar er mikið af sakamönnum að fá afslátt af dómi og fræðandi að kynnast hugarheimi þeirra.
Athyglisverðir smáhringir eru innbrotahringir, sem selja góssið með milliliðum til austantjaldslanda með gámum og fá oft borgað í dópi.
Ef menn verða heiðarlegir eða edrú í þeim hóp og vilja út, þá er þeim hótað eða þeirra nánustu og þeir barðir til óbóta. Þeir geta því ekki hætt illskunni og glæpunum. Þeir halda því áfram í því göfuga markmiði að vernda þá, sem þeim þykir vænst um. Klíkan á þá þó þeir séu ekki að brjóta af sér af hugsjón. Frekar eru þeir í þessu með hálfum huga.
Mér finnst það athyglisverður grunnur fyrir inner conflict í persónum.
Svo er annað með þessi innbrot. Menn leigja sér þessi gengi til að brjótast inn og stela tölvum t.d., þegar þeir þurfa að öppdeita búnaðinn. Þetta er bissness, þar sem tryggingafélögin fara jú halloka í. Gaman væri t.d. að fylgjast með tíðni slíkra glæpa, þegar Windows vista hefur innreið sína fyrir alvöru. Það kerfi krefst stærri búnaðar og því þarf maður þjóf til að stela gömlu tölvunni.
Bara svona ábyrgðarlaus pæling.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.2.2007 kl. 12:20
Guðný - jú það er innspírandi að vera hér :)
Kleópatra Mjöll - Segi það sama um þitt blogg, einlægt og hreint út
Jón Steinar - Takk fyrir mjög flottar hugleiðingar, nýtist mér vel að fá svona speglun.
Takk fyrir mig :)
Ólaf de Fleur Jóhannesson, 7.2.2007 kl. 19:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.