Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Listi yfir það sem fer í taugarnar á mér

Mig hefur lengi langað til að gera lista yfir það sem fer í taugarnar á mér. Öllu heldur einhver hluti af mér hefur viljað það. Sem betur fer hef ég náð að réttlæta fyrir sjálfum mér að öll lifum við með mörgum persónum. Því þarf ég ekkert að taka þátt í því sem þessi hluti af mér vill gera.

Málið er einfaldlega, ef eitthvað fer í taugarnar á mér, þá er það ekki mitt vandamál að taka þátt í því. Auk þess sem þetta "fara í taugarnar á sér" er lítið annað en skammlíf sjálfhverf alda sem heimtar athygli. Sá hluti af okkur sem lætur eitthvað fara í taugarnar á sér er lítið annað en skortur á fókus eða a.m.k. er honum misbeint.

Annar hluti af mér hefur komist að því að bara aumingjar láta hluti fara í taugarnar á sér. Að sjálfsögðu er ég ekkert sammála því. Eða einhver hluti af mér, þ.e.. :)

Maður á bara ekkert að taka sjálfan sig of persónulega. 


úr klósettbókinni

"What we call evil is simply ignorance bumping its head in the dark."

Henry Ford


Tíkin

baerStundum óska ég þess að ég hefði nokkur eintök af sjálfum mér. Það er svo mikið sem þarf að gera í þessu kvikmyndastússi. Ég hef aðallega verið í heimildamyndum, hver þeirra tekur um þrjú ár í vinnslu. Yfirleitt reyni ég að rúlla tveim í einu, annars fengi ég óþægilegan mikinn tíma með sjálfum mér sem ég hef lítinn áhuga á.

Þætti vænt um, ef einhvern kvikmyndastúlka eða piltur þarna úti tæki að sér að documenta andlát íslenskra sveita. Þessi tími er í síðustu töktunum og það er enginn að taka þetta upp.

Gísli, "Út og Suður" piltur skilar sómasamlegum verkum í sínu hugsjónarstarfi. Mun meira þarf þó til. Ég myndi gera þetta sjálfur, og kannski aulast ég til þess. En hvorki ég, né Gísli, eða einhver annar, erum Ómar Ragnarsson sem kann þetta langbest.

Því miður hefur pólítíkin gleypt Ómar. Sú tík hefur stolið mörgum góðum manninum. Ég legg til að Ómar verði píndur til að fylgja eftir ævistarfi sínu, með því að gera kveðjuverk um landsbyggðina sem er kominn nálægt grafarbakkanum í þeirri mynd sem hún var. Þetta hefur gerst örsnöggt og því mál að taka í taumana (eða upp myndavélina).

Kannski er þetta bara nostalgíja. Kannski er þetta minni innri nöldurkall að babla um að allt hafi verið betra í fortíðinni. Og þó, alls ekki. Það var alveg sami tími. Það eina sem ég sé eftir er manngæskan. Hún hefur verið étin lifandi af peningahyggjunni. Sveitamaðurinn í okkur er að deyja. Ef það springur hjá einhverjum út á götu eru öngvir sveitamenn eftir til að koma og aðstoða. Í dag er meira "farðu frá" heldur en eitthvað annað. Það getur verið að þetta sé bara bull í mér framkallað af fegurðarblæju tímans.

Lífið er bæði einfalt og flókið. Það er hægt að fara í marga orðleiki með þetta.

Líkt og fegurð barna, sem eru alsaklaus í sínum fyrstu skrefum, er það einfaldleikinn sem ber sterkustu fegurðareinkennin. Og það er það sem þarf að ná í rassinn á. Eitthvað sem hægt er að skoða fyrir komandi kynslóðir. Aftur, það getur meira en vel verið að þetta sé einhver rómanshyggja.

Lífið hérna á klakanum virðist bara vera orðið aðeins of töff fyrir minn smekk. Það er líkt og einlæg heimska unglingsáranna, þegar maður trúir því stundarkorn að maður viti og geti allt betur en flest önnur spendýr. Sveitin er ennþá sá staður sem maður lærði sjálfsagða auðmýkt í gegnum hversdagsleg leiðindaverk sem þó spennti bogann lengra og lengra fyrir ævintýragjarnan huga.

Það er ekkert að því að spegla þetta framan í töffaraheiminn sem þarf vænan rasskell af einlægni.

Svo ég hagi mér fullkomlega eins og áttræður nöldurkarl á horni, læt ég nokkrar línur frá Páli Ólafs fylgja. Líka til að ríma við ljósmyndina sem fylgir þessari færslu.

Ástar minnar eldur hreinn,
augnaljósi kveiktur þínu
lifa skal um eilífð einn
óslökkvandi í hjarta mínu.

Páll Ólafsson (1827-1905)





Hugrakkar stelpur

xboysEftir að hafa unnið að "Queen Raquela" í u.þ.b. ár fékk ég emil frá nokkrum stúlkum í Manila.

Ég tók myndina að hluta upp á Filippseyjum nánar tiltekið á eyjunni Cebu. Eyjan er frægust fyrir að vera dánarstaður Magellan. Stríðshöfðingi að nafni Lapu Lapu drap hann í orrustunni um Mactan á Cebu árið 1521.

Ég vildi ekki taka myndina upp í Manila þar sem borgin er alræmd fyrir hávaða, mengun og almenn læti sem hefðu truflað Búðdælinginn við tökur. Hvað um það, myndin fjallar semsagt um stráka sem ganga inn í lífið með stúlkuanda. Skýringar á þessu fyrirbrigði eru engar, a.m.k. ekki nothæfar. Einkum eru skýringar fræðimanna á þá leið að "hugsanlega þetta og hitt" geti verið orsökin. Lífið er falleg rökleysa og ágætt að taka því þannig. Skekkjumörk skilningsins á kraftaverkinu eru handan okkar tvívíða skilnings.

Almennt er þetta erfitt hlutskipti að vera Stelpustrákur, að ekki sé talað um í hard-core kaþólsku samfélagi líkt og á Filippseyjum. Ég vissi í sjálfu sér ósköp lítið um þetta, í raun áttaði mig bara á myndinni í miðjum tökum. Skrifaði heilan helling um þetta og birti hér og hvar, m.a. á heimasíðunni hjá okkur á Poppoli.

Það var þar sem fámennar, en hugrakkar stúlkur í Manila komu auga á villur í máli sveitapiltsins. Ég fékk nokkra blíðmælta emila frá þeim, þar sem þær skömmuðu mig, leiðréttu hinar og þessar staðreyndir um sitt hlutskipti.

Yfirleitt þegar maður reynir að skapa eitthvað myndefni er maður óþægilega meðvitaður um tilgangsleysi þess. Þessi sjálfhverfi kvikmyndaheimur er ekkert sérlega þægilegur í sambúð.

Nema hvað loksins er ég (ath ásamt ótrúlega góðu starfsfólki), hugsanlega búin að aula út mynd sem getur orðið til einhvers gangs.

Stúlkurnar í Manila reka lítin réttindahóp Stelpustráka, þær fá engan fjárstuðning heldur strögglast í þessu af hugsjón. Þær fara í skóla og fræða börn um hlutskipti sitt, það að vera kona en geta aldrei eignast börn, það að vera kona en geta yfirleitt ekki eignast gagnkynhneigðan kærasta. Einnig berjast þær við stjórnvöld af hörku, þar sem Stelpustrákar fá ekki inngöngu í góða skóla eða góð störf.

Þær enda yfirleitt á götunni í vændi eða í felum á einhverri hárgreiðslustofunni. Stelpustrákar (Ladyboys / Shemales / Transsexuals) eru einnig vinsælar í klámheiminum. Hvernig á heimur karla að taka þessu stúlkukyni öðruvísi? Skilgreina þær sem sem enn eitt kynlífsörvunaratriðið á leiksviðinu. Þessar stúlkur endurspegla stöðu kvenna sinnum tíu á plánetunni. Ég er ekki femínisti, veit ekki hvað það þýðir, en held ég hafi slysast til að gera háfeminíska sögu.

Nú ætla stúlkurnar að taka myndina af mér, ætla að nota hana sem verkfæri í baráttu sinni við stjórnvöld á Filippseyjum. Þar ætla þær að sýna myndina í kvikmyndahúsum í Nóvember og vekja athygli á baráttu sinni við að koma í gegn "Anti-Discrimination" (gegn-mismunun) lögum á Filippseyjum.

Hvort sem það tekst eða ekki. Hvort sem Queen Raquela hjálpar eða ekki, þá amk var þetta erfiðisins virði.

Að fá stuðning við Queen Raquela hér heima hefur ekkert gengið. Þetta er skilgreint sem einhver óþægileg "hommamynd" af því er virðist. Það er eins og fyrirtækjum finnist óþægilegt að láta bendla sig við "homma" eitthvað.

Queen Raquela hefur verið rekin af vanefnum, það er reyndar ekkert nýmæli fyrir kvikmyndabröltið hér heima. Stuðningur frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og Norræna kvikmyndasjóðnum, RÚV, Danmarks Radio, TV2 í Noregi hefur gert mér kleift að hafa farið langleiðina með verkið. Þó það vanti herslumuninn þá skiptir það ekki máli. Ég hef ávallt náð að ljúka verkum sama hvernig buddan er. Eina sem þarf er tölva og sæmileg nenna.

Er ekki alveg viss hvenær mér tekst að drösla henni í bíó. Það verður fyrr eða síðar.

Heterosexual heimur

Heimurinn er hetero. Hann er square. Einfaldur. Barnalegur í slæmri merkingu þess orðs.
Við höfum skapað eitt risastórt forheimskunarskrímsli. Sem manneskju líður manni eins og bjána í fótboltaliði sem tapar hverjum einasta leik. Maður skammst sín fyrir sjálfan sig og aðra.

Það má afgreiða þetta sem neikvæðishjal úr einhverju hugarboxinu. Ehm, ef maður kíkir aðeins í kringum sig hér, þá er einhver hundasaga sem fær mestu athyglina, verðulega svo, það sem hún toppar hálvitaganginn í okkur. Smá múgæsing yfir ferfætlingnum og hálfur bærinn var kominn niður á Geirsnef.

VSK lækkaður á matvörum, allir búðareigendur settu í gróðragírinn og það heyrist ekki píp frá Geirsnefssamtökunum. Samfélagið er búið að panta æviáskrift af athygli okkar og minnst af henni fer þangað sem hún ætti að fara.

Bloggbyltinging svokallaða á Fróninu snýst að megninu til um að afhjúpa tilgangslausan blaðurgang líkt og þann sem undirritaður hripar hér. Eitthvað sem hefði getað orðið ágætur vettvangur fyrir ganglegar umræður snýst að meginu til um eitthvað allt annað. Fá blogg komast með tærnar þar sem Egill Helgason hefur hælana.

Fókus "markerinn" okkar er út um allt. Án efa er honum sjaldnast miðað á þá háleitu staði sem við miðuðum á sem börn. Athygli okkar er upptekinn mestmegnis af meiningarlausu hjómi, almennu meðvitundarleysi ... Einu skiptin sem athyglin fer í gang er þegar við fáum ekki það sem við viljum. Þá fyrst verðum við meðvituð um stað og stund.

Við höfum málað okkur út í horn með rétttrúnaðarskoðunum, það er ekkert pláss til að mála heiminn eigin litum.

Þarna "úti" er óendanleg fegurð. Inn í okkur leynist stærsta vopnbúr hamingjunnar. Skömmust okkar og leggjum meira í það sem skiptir okkur máli. Vinnum þá athygli sem hversdagurinn hefur tekið í gíslingu tilbaka.

Hægt er að skrá sig á "www.fighttheeverydayattention.com". Bara með því að skrá sig þar inn hefurðu tekið fyrsta skrefið.

Ætla að fara gera sjálfshjálpar -videó. Hægt verður að panta fyrstu eintökin hér.

Ég hlýt að vera kominn á "what is this world coming to" aldurinn. Fer í aldursmælingu á morgun, hlakka til. :)

Garfield


Sköpunargáfa vs. Skólaganga

Frábær fyrirlestur. Áminning að klaufaskapur, almennur þorinleiki, hugrekki, tilraunir - mun mikilvægara en að "hegða sér rétt". Amen.

Best of blaður

Eins mikið bull og þessir "best of" listar geta verið, þar sem persónulegt smekkskin er víst misjafnt - það eru sífellt einhverjar listar að segja manni að þetta og hitt hafi verið best og verst. Svo það sé sagt með orðum Seinfelds sáluga "yadi yadi yada" (þýð: blah blah blah). Hvað um það, ég þvaðra hér upp minn prumpulista yfir sæmilegustu rúllur síðustu tíu ára. 

Magnolia, Amelie, Lost in Translation, Der Untergang, Fight Club, Matrix, Groundhog Day, Ma vie de Chanson, Usual Suspects .... er ég að gleyma einhverju?


Stolin Manila

82433586.8UJ4Vzsn.11

 Ung ljósmyndaskvísa að nafni Sass á Filippseyjum sem ég þekki tekur príðilegar ljósmyndir. Hérna er nokkrar frá Manila. Sjá hér.


Fagurkvikmyndir

Kvikmyndagerðarmaðurinn Alejandro Jodorowsky sagði einhverntíma "Flestir leikstjórar gera myndir með augunum, ég geri þær með eistunum".

"Jojo" hefur gert slatta af einföldum melódrömum. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ólaf de Fleur Jóhannesson
Ólaf de Fleur Jóhannesson
El chico con cámara

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband