Færsluflokkur: Bloggar
6.2.2007 | 21:15
Stóra Planið
Er að undirbúa næstu mynd. Í augnablikinu erum við að klippa "Queen Raquela", það er prúður piltur að nafni Dagur Kári sem deilir snilli sinni í gegnum klippiborðið á þeim vígstöðvum. Í dag hef ég verið að snurfusa stutta samantekt fyrir næsta verk - gamanmynd sem kallast "Stóra Planið". Læt efnistökin fylgja hér að neðan. Sendi ljúfar út í lifið úr fílabeinsturninum á Vesturgötu.
...
Stóra Planið
Næstum því Kung-Fu mynd
Þegar Davíð var lítill drengur missti hann litla bróður sinn í slysi. Síðan þá hefur hann öðlast sáluhjálp í kínversku sölumyndbandi sem kallast The Higher Force eða Stóra Planið eins og Davíð kýs að kalla það. Þó flestir myndu afgreiða boðskap myndbandsins sem fimmaura-heimspeki þá veit Davíð betur.
Enn þann dag í dag gagnast þessi speki honum vel. Þrátt fyrir að Davíð sé í vafasömum félagsskap í handrukkaragengi þá er hann fullviss um að stærra lífshlutverk bíði hans með hjálp Stóra Plansins.
Davíð (Pétur Jóhann Sigfússon) kynnist einmana grunnskólakennara Haraldi (Eggert Þorleifsson) sem skynjar þörf unga mannsins fyrir leiðsögn í lífinu og tekur hann upp á sína arma. Þegar Davíð trúir Haraldi fyrir því að hann sé meðlimur í glæpagengi umturnast Haraldur sjálfur í glæpakóng. Haraldur segist allt í einu fá sendingar að utan með leynilegum varningi, eiga fullt af íbúðum og vera með marga grunsamlega menn í vinnu.
Í handrukkargenginu er alltaf verið að gera lítið úr Davíð fyrir kveifskap. Það breytist þegar Davíð segist þekkja Harald hinn mikla glæpakóng. Við þetta verður Davíð aðalnúmerið, maðurinn sem leggur líf sitt og limi í hættu til að njósna um hinn hættulega grunnskólakennara.
Davíð er fullviss að hin góða staða hans í dag sé Stóra Planinu að þakka og nýtur hverrar mínútu sem aðalmaðurinn í genginu. Smám saman koma brestir í hina nýju heimsmynd Davíðs, Haraldur verður æ skrítnari í hegðun auk þess sem foringi handrukkaragengisins krefst þess að Davíð láti til skarar skríða gegn grunnskólakennaranum ekki seinna en strax.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.2.2007 | 00:41
Fréttatími - leikþáttur
Hér verður fluttur leikþátturinn "Fréttatími".
(fréttastef, spennandi, myndir af ýmsum stórviðburðum liðinna tíma)
Myndver opnast, þar sitja herra þulur og ungfrú þula.
1) Þulur: "Gott kvöld, nú verða sagðar fréttir"
Þula: "Maður á fertugsaldri framdi sjálfsmorð í gær eftir að hafa ekki ráðið við eigin tilfinningar. Lögreglan í Reykjavík telur að maðurinn hafi fyllst tímabundu vonleysi og því tekið til þessara ráða. Fjölskyldan mannsins sýnir ástandinu skilning enda hafi hann verið þunglyndur lengi. Auðvitað sé leitt að hann sé farinn og þau muni sakna hans, en þar sem dauðinn sé daglegur gestur á móður jörð er óþarfi að gera of mikla dramatík úr málinu þó vissulega taki þetta á.
2) Þula: "Gunnar Sigurðsson myndlistamaður opnaði nýja sýningu í dag á Hallormsstíg"
Klippt úr myndveri:
Gunnar: "Jú, þetta hafa verið mikil átök að berja þessar myndir saman og gaman þegar fólk hefur áhuga á því sem ég er að gera, en auðvitað er ég ekkert merkilegri en annað lið í þessu, því allt er jú list og ekki list. Það ákveður það enginn fyrir mann (brosir hlýlega).
3) Þulur: "Sigrún Óskarsdóttir er sextíu ára í dag, hún hefur nýlega tekið að sér hvolpa sem koma skemmtilega á óvart."
Klippt úr myndveri:
Sigrún: "Ég veit ekkert af hverju þeir gera þetta, ég kom bara inn einn daginn og þá voru þeir að þessu."
Þulur: (yfir mynd) Hvolparnir Tumi og Trítla hafa að undanförnu tekið upp á því að taka til í íbúð Sigrúnar á meðan hún fer út. Sigrún segist ekkert hafa þjálfað hvuttana. Nánar verður fjallað um málið í Kastljósi hér á eftir.
4) Þula: "Nú er komið að þögninni, að venju þegjum við með ykkur í fimm mínútur til að minnast þess að við erum hér til að njóta lífsins, hins góða og slæma, ekki til að streða og hafa of mikið af áhyggjum af hlutum sem skipta engu máli.
(þögn í fimm mínútur)
5) Þulur: "Þorsteinn Bergill Unnarsson, þrettán ára nemandi Grunnlaugsstaðaskóla segist vera hommi, honum var vel fagnað af skólafélögunum í dag fyrir að horfast í augu við sjálfan sig svona snemma. Alls eru þá 14 hommar og 17 lesbíur í skólanum af 300 nemendum. Magnús Ari Ásgeirsson skólastjóri er ánægður hve vel hefur gengið að koma krökkunum í skilningum um hve eðlilegt fyrirbrigði þetta sé.
6) Þulur: "Mikið var röflað á alþingi í dag, þeir sem hafa áhuga á málinu geta kynnt sér það á textavarpinu"
7) Þula: "Við þökkum fyrir okkur og í lokin ætlum við að kíkja á myndir þar sem einhverjir peningbjánar sem hafa arðrænt okkur íslendinga gengu frá kaupum á einhverju rugli sem okkur kemur ekki í baun í bala við."
(lokatexti rúllar yfir myndir af einhverjum mönnum í jakkafötum á skrifstofu að skrifa undir eitthvað skjal - skrítið og skemmtileg lagt er undir)
Fluttur var leikþátturinn "Fréttatími"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.2.2007 | 19:14
Útlenskur bifvélavirki
Bloggar | Breytt 17.2.2007 kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.2.2007 | 08:46
Láttu drauma þína rætast - Rassskelling
Hérna er klipp úr mynd sem ég hef verið að undirbúa lengi. Myndin fjallar um "Mike Stone". Kappinn er afar upptekinn af því að lifa í núinu og finna hamingjuna. Áður en ég skrifa meira um Mike - þá læt ég fylgja litla og holla skammarræðu frá honum til okkar nútímafólks:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.2.2007 | 21:20
Óhamingjan
Þetta hefur gagnast undirrituðum afar vel á undanförnum árum. Í hvert skipti sem ég hef slugsað að setjast niður á rassinn og anda inn og út þá verð ég óöruggari með eigin tilveru, hræddari og sífellt að búast við óvæntum árásum frá góðvinum hverrar mannveru, sjálfsfyrirlitningu, áhyggjum... o.s. frv.
Einhvern veginn gerist það þannig eftir "núveru" að maður finnur innst inni að allt verður í lagi sama hvað gerist. Ég er alveg til í að leggja þá líðan inn í banka, en um leið og maður reynir að frysta vellíðan þá gengur hún úr sér. Þannig að þetta er gagnlegt en ekki geymanlegt. Það er því ljóst á þessum bæ að vinnunni verður aldrei lokið, það verður engin mínúta raunverulega frímínúta í framtíðinni. Árans puð þetta líf.
Af hverju var gefin út þessi bull-ranghugmyndabæklingur við fæðingu. Að maður ætti að leyta að hamingjunni, sem hefur ekkert notagildi, ekki einu sinni andstæðan, óhamingjan hefur raunverulegt notagildi. Bæði eru þessi fyrirbrigði yfirborðsleg og hrökkva skammt í þroskamyllunni. Það er eitthvað miklu mun dýpra sem orð ná ekki yfir sem maður þarf að kafa. Grunar mig.
Tek fram að þetta er ekki skrifað í predikunartón, hver og einn hefur sinn einstaka sam-mannlega innri þjáningarheim til að taka á við.
Tja, litrófið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.2.2007 | 19:39
Útlenskur bifvélavirki II
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2007 | 20:39
Afmæliskakan
Okkur er ætlað að vera eitthvað kassafólk fyrir ósýnilegt skrímsli sem kallar sig eðliegur samfélagsborgari - þar sem maður á að nauðga sér svo og svo mikið pr. viku til að geta fengið þessar gullnu þrjátíu mínútur af sæmilegum stundum á kvöldin.
Þetta afmælisbarn óskar eftir því að verða aftur barn, hafa aftur gaman af eigin afmælum, fá skynjun og bjartleika æskunnar tilbaka. Gefa lítið fyrir lög og reglur annarra manna.
Galdurinn til að laga þetta er einfalt fyrirbrygði. Auðvelt er að finna þennan neista hvernær sem við viljum.
Svarið er svo augljóst að það tekur því ekki að nefna það.
Sendi afmæliskveðjur til sjálfs míns - 9 ára (mamma var eitthvað í burtu, Hildur frænka bakaði köku sem ég át með vanþakklæti, er þó afsakaður sökum aldurs).
Bloggar | Breytt 4.2.2007 kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.2.2007 | 16:11
Aflimað fólk og gamlar konur
Kristof og skólafélagar bjuggu til leik sem fólgst í því að safna stigum á leið í skólann. Stigin voru metin eftir fjölda aflimaðra sem þeir sáu á leið í skólann. Fimm stig fyrir einhenta, tíu fyrir engar hendur, fimmtán fyrir hendur og ein löbb, svo voru bónusstig fyrir þá sem höfðu misst alla útlimi.
Einnig bjó eldgömul kona skammt frá skólanum, lítill kamar var um hundrað metrum frá húsinu hennar. Á hverju morgni fór konan á kamarinn, nema það tók hana um klukkustund, svo bogin og hæggeng var hún. Klukkan tólf á hverjum degi þustu skólapiltarnir upp á efstu hæð skólans, kíkktu út um gluggan til að athuga hve langt hún hafði komist. Svo var deilt út vinningsfé fyrir þá sem höfðu veðjað á rétta vegalengd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.1.2007 | 10:58
Wolfgang
Þessa dagana er ég að ljúka við að snurfusa handrit að nýrri mynd sem kallast Stóra Planið. Þetta er leikin mynd í fullri lengd. Ég legg hér inn lítið videó af karakter sem kallast "Wolfi". Þetta er aukakarakter í myndinni. Með aðalhlutverk í verkinu fara Pétur Jóhann Sigfússon og Eggert Þorleifsson. Hann er skondin kaupi hann Wolfgang:
Bloggar | Breytt 1.2.2007 kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.1.2007 | 19:03
Hjartablómin
Í hausnum á mér er ýmsum brögðum beitt, þar er harðduglegt lið sem vinnur án yfirvinnutaxta, beitir kunnuglegu málþófi þegar við á og hefur svar á reiðum höndum við hvert tækifæri. Baki brotnu vinnur það við að steypa í sjálfsréttlætingarveggina, sem verða sífellt kostnaðarmeiri. Sérstaklega þegar maður hefur oft rétt fyrir sér. Svo eru heilir kastalar sem hafa verið byggðir í kringum hjartablómin, sem nokkrar trítlandi stúlkur hafa fengið að sjá, en það var alger undantekning. Það er þegar ég sest niður í hálftíma á hverjum degi og anda inn og út (sem eru tóm leiðindi), þá sér maður glitta í þennan arkitektúr og er harðlega áminntur um eigin meðvitundarleysi. Amen.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)