Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Útlenskur bifvélavirki

Untitled-1Ég tók upp nokkrar auglýsingar fyrir vin minn sem rekur bílaverkstæði á föstudaginn. Ætla hérna að deila með ykkur einni. Mér datt þetta í hug þegar ég var að ryksuga um daginn (gerist ekki oft, þ.e. ryksuga þ.e.). Þessi drengur, hann Zlatko er áhugaverður maður, hann kom hingað eftir stríðið í Júgóslavíu sem flóttamaður og hefur komið áru sinn vel fyrir borð.

Hér má sjá fyrstu auglýsinguna fyrir Bílaþjóninn 


Sannar lygar?

shopping and bloggersÉg kann því illa þegar einhver segir eitthvað fyrir eigin hag sem er klárlega lygi. Þetta er mannlegt, eðlilegt og fullkomlega o.k. í saklausu, mistakanlegu mannlegu formi. Reglulega verður okkur á í messunni og ef við gerðum það ekki þá værum við líklega á hærra lirfustigi, í einhverri engladeildinni að stjórna umferð og einhverju slíku. Við eigum að gera mistök, ljúga oft og gera okkar besta til að horfast í augu við það seinna og laga. Allt eðlilegt.

En, þegar einhverjar manneskjur út í bæ eru uppiskroppa með hugmyndir fyrir stórfyrirtækið sem það hannar auglýsingar fyrir og bullar eitthvað upp eitthvað slagorð sem er skrumskæling á sannleikanum - þá kemur það obbolítið við kauninn. Flest fyrirtæki fara þó sómasamlega með þetta. Svo ég sé uppbyggilegur í gagnrýni þá set ég líka tillögur fyrir aftan. Voilá:

1) "Öruggur staður að vera á" - Veit ekki hvort þeir eiga við Brimborg húsið sjálft en það getur að sjálfsögðu allt gerst þar eins og annarsstaðar. Svo eru bílar ekki öruggir staðir til að vera á.
Í staðinn mætti segja:
"Brimborg, við seljum bíla sem hafa verið prufaðir sæmilega með brúðum, en að sjálfsögðu ertu á eigin ábyrgð".

2) "Hagkaup, þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla" - Það eru engar vísindalegar sannanir fyrir því, finnst einhverjum skemmtilegt að versla í Hagkaup?
Í staðinn:
"Hagkaup selur fullt af vörum, hvernig þér líður á meðan þú verslar er auðvitað undir þínu dagsformi komið, skilurðu, við getum ekki borið ábyrgð á þér, en við mælum með að þú temjir þér jákvætt viðhorf til eins hversdagsfullra athafna eins og að standa í röð og versla, þetta er líka fyrirtaks leið til að horfast í augu við sjálfan sig, upplifa eigin leiðindi sem er mjög hollt fyrirbrigði - Hagkaup, þar sem þú getur ekki flúið sjálfan þig".

3) "Vöxtur, þú færð meira" - Kaupþing- það getur vel verið að ég fái meira, en þeir fá miklu meira.
Í staðinn:
"settu peninginn þinn til okkar, svo við getum ávaxtað hann fyrir okkur, og við látum þig fá örlítið af þeim hagnaði"

Læt það vera að telja upp meira. Afsakið röflið en stundum bara .... voff :)


Mislitur

Ég þakka góð komment hér á "Stelpustráka". Gaman að heyra hvernig efnið sem maður hefur verið að vinna að kemur við aðra. Í raun er leikurinn til þess gerður í þessum kvikmyndabransa, í þeirri von að myndirnar sem maður rembist við hafi einhver áhrif, þó auðvitað séu þau ávallt mislit. Ég ætla að setja reglulega inn myndefni hér og deila með ykkur samstíga heilbrigðu blogg babli.


Stelpustrákar

4Ég er sem stendur að ljúka við mynd sem kallast "The Amazing Truth about Queen Raquela". Myndin fjallar um líf stelpustráka á Filippseyjum og þann heim sem þær lifa í. Myndin hefur verið ótrúlegt ævintýri, að venju vissi ég ekki baun í bala hvað ég var að gera. Fór eitthvað með myndavél til að sjá hvað myndi gerast.

Nú er myndin í síðasta klippi og vonandi næ ég að ljúka henni áður en við förum í undirbúning fyrir næstu mynd í apríl (Stóra Planið, aðahl. Pétur Jóhann Sigfússon og Eggert Þorleifsson).

Þetta er ævintýraferli, að búa til mynd, nánast eins og fara út úr líkamanum og sjá sjálfan sig vinna að einhverju. Nánast eins og hugleiðsla, þar sem maður fjarlægir sjálfan sig svo allt geti flætt ótruflað. Ótrúlegt hvað maður getur sífellt þvælst fyrir sjálfum sér.

Hérna er hægt að sjá stutt spjall við aðalhetju myndarinnar Raquelu. (Birt fyrst hér fyrir bloggheima).


Um hvað snýst lífið?

testino_kate_mossFyrir þá sem efast um hvað lífið snýst á Íslandi, þá hef ég gert stutta samantekt. Ef þið eruð haldin verkuleikafyrringu þá er þetta loksins komið á hreint. Mér er stórum létt. Njótið vel:

Lífið er:
SP Fjármögnun tvöfaldar hagnað
VÍS með betri afkomu í ár en í fyrra
KB BANKI gerir upp í evrum
Íslenska handboltalandsliðið sigrar eitthvað lið
Beckham rakar sig ekki undir höndunum
Kate Moss rakar sig ekki undir höndunum
Magnús ónægður með Frjálslynda
Ferguson kaupir M'ta Mongoolu
Í Hagkaup er skemmtilegast að versla
Tippaðu í beinni
Vodafone extra fyrir þá kröfuhörðu
Þrír svíar fórust í flóði í Bangladesh (1343 heimann fórust)
Actavis kaupir Minnutta lyfjafyrirtækið í Oklahoma
Samfylkingin mun ekki gefast upp
Finnur Guðbjartsson í þrettaánda sæti

... Framtíðin er mjög björt verð ég að segja (núi saman lófum af æsingi).
Amen.

Sjálfsfyrirlitning

746px-1913-Dictates-of-Fashion-Calvert-Life-cartoonLífið gengur sinn vanagang. Á meðan líkami manns ferðast hingað og þangað í mis-mikilvægum erindagjörðum, þá er hausinn einhvern veginn ávallt út um allt. Maður er sífellt að velta fyrir sér hinu og þessu, stanslausar rökræður um eigið ágæti þar sem efasemdarmaskínan dunar í góðum takti við heilbrigða sjálfsfyrirlitningu til mótvægis við sjálfsmont og hól.

Það sem ég þoli illa í þessu, er að sjálfsfyrirlitningin virðist mun sterkari en hið jákvæða. Þetta á auðvitað ekki að vera svona. Þessi missklinigur sést vel í Japan, þar sem hógværð jafngildir því að skammast sín fyrir eigin tilveru. Því meira sem þú skammast þín, því betri manneskja ertu. Þetta fyrirbrigði er eilítið mýkra í vestrænu samfélagi og kallst hógværð.

Þessar vogaskálir góðs og ills hafa gríðarleg áhrif á okkur. Lamandi sem hvetjandi, koma og fara með eða án boðkorts.

Einn daginn fær maður sig ekki til að njóta daglegra starfa, á meðan hinn daginn gæti maður pakkað saman hvaða vegsljóni sem er. Ég vil gjarna fá að vita hvernig á að stjórna þessu? Er það með því að gefast upp eins og búddískir spekingar boða, eða er það með því að styrkja eigin skoðunarrass eða eigin túlkun á hlutunum.

Ég einhvernveginn held að búddarnir hafi eitthvað til síns máls í þessu. Svo erum við svo ólík kvikyndi, þó við séum frá sama brunni, það er misjafnt hvað hentar hverju okkar hverju sinni. Því skal hafa sterklega í huga, að allir megi bara geri það sem þeim sýnist án þess að skaða aðra. Aftur, lífið er upp og niður í hverju bliki og meikar ekkert sens, þó allir segi að það geri það.


Barbie-Þjálfun

thennow"Það styttist óðum í Góu og því ber að huga vel að vetrardekkjunum". Þessi orð gullu í útvarpinu á Rás 1 einhverntíma - ég hef aldrei vitað sérstaklega hvað Góa er - hinsvegar veit ég nokkurn veginn hvað vetrardekk eru. Enn betur geri ég mér grein fyrir gangsleysi orða þegar maður er að reyna tjá sig gagnvart hinu kyninu. Eða sama kyni þegar við á.

Hef oft velt því fyrir mér hvers vegna ég tapaði ávallt í öllum sektarkenndar-leikjum við stúlkur á mínum yngri árum (1875-1934). Allir piltar eiga ekki, og munu ekki eiga sjens í stelpurnar þegar kemur að heilbrigðri sambandsstjórnun, þegar við vorum eins og apar úti að leika okkur í bissó - voru þær inni í stöðugri þjálfun. Með Barbí sem æfingartæki, bútuðu þær niður sjálfstraust Ken svo hann var á endanum orðinn innantómur auli. Á endanum skyldi Barbí við Ken (1994, okt) eftir að hún hafði endanlega misst allt álit á mannleysunni.

Af hverju mega strákar ekki bara vera strákar í friði? Amen.

Þakklæti til VG, Sjálfstæðisflokksins og hinna

Ég þakka guði, skaparanum, eða hvað skyldi kalla þann sem lagði til þennan sjálfum-gildrandi-heim. Ég þakka, ég þakka. Beygi mig og bugta. Segi amen, La-Le-húja o.s. frv.. Á sérstökum stað í hjartanu er stöðugt tárvott auga af þakklæti geymt í glerkrús. Ég opna oft þetta herbergi, bara til að kíkja og sjá hvort þakklætið sé ekki enn til staðar, að tárið sé ekki enn vott og hreint. Þakklæti þetta er fyrir fólkið sem hefur áhuga á stjórnmálum, sem nennir að sinna því vanþakkláta, heilaþynnandi starfi af einhug. Ég hef þetta bara alls ekki, og því vil ég koma formlega fram þakklæti til þeirra sem nenna að skrifa, hugsa, tala um stjórnmál almennt. Mér finnst áhugi á stjórnmálum mun áhugaverðara en stjórnmál, ég hef lengi leitað í holræsum áhugadeildarinnar í sjálfum mér en alls ekki fundið. Á meðan ég leita ekki, þá sendi ég þakkir mínar til þeirra sem nenna þessu. Amen.

Íslandsfræði - Andleg líðan

Íslendingar eru sérstaklega uppteknir af því að "líta rétt út" - "haga sér rétt" o.s. frv.. Við erum mjög upptekin af því að vera correct. Ég held að við værum betur sett ef við værum meira hreinskilin með líðan okkar, t.d. ef Davíð Oddson hefði bara stundum sagt "Ég er svo þunglyndur í dag, og búin að vera undanfarna viku, hef sofið lítið, þannig að ég hef eiginlega ekkert getað tekið ákvörðun um þetta mikilvæga mál".

Ég held að því hreinskilinari sem við séum, hættum þessum bull þykjustuleikjum, eins og: "það er allt í lagi hjá mér alltaf". Þá þurfa þeir sem eru ekki í þessar normal-klíku að finnst þeir alltaf vera aumingjar. Við erum ein stór risa-lita-klessu-flækja - og eigum að leyfa okkar að líða eins og okkur líður og að geta talað um það.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ólaf de Fleur Jóhannesson
Ólaf de Fleur Jóhannesson
El chico con cámara

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband